Færsluflokkur: Menntun og skóli

Refur dró hörpu á ísi

Í Árnasafni í Kaupmannahöfn er ég í lestrarhópi ásamt sumu starfsfólki Fornmálsorðabókar íslensku. Nú erum við að lesa Morkinskinnu, sem segir sögu Noregskonunga frá Haraldi harðráða fram á 12. öld. Hún er mjög vel orðuð víða og skemmtilegar sögur í henni, t.d. Sneglu-Halla þáttur, sem margir kannast við. Tilhlökkun er að brátt birtist Morkinskinna í Íslenskum fornritum.
Í Sveinkaþætti Morkinskinnu segir að um aldamótin 1100 sendi Magnús konungur boð til Sveinka sem réð fyrir héraðinu þar sem Gautaborg er núna, og krafði hann um skatt. Sveinki svarar í þremur atlögum. Þar koma fyrir líkingar, sem staðið hefur í mörgum að skilja. En mér sýnist það vegur eftir skýringar Aðalsteins Eyþórssonar, listmálara m.m. Þær fékk ég framsendar í tölvupósti og leyfi mér að tilfæra nokkuð úr. Ekki á við að hafa það orðrétt, og endursegi ég bara meginatriði um orðalag sem víðar kemur fyrir í fornritum: "Era hlums vant, kvað refr, dró hörpu at ísi".

1.Aðalsteinn segir að "draga e-ð at ísi" merki að draga e-ð eftir ís, og lesa beri: "era hlunns vant ..." Era merkir: er ekki.
2.Hlunnur er spýta eða hvalbein sem bátur er dreginn eftir á landi (til að drátturinn verði léttari) - þar er komin tenging við það að draga. Refurinn segi að hann sé svo sterkur að hann þurfi engan búnað til að draga það sem hann dregur.
3. seinni parturinn, lýsingin á aðstæðunum, geri tilsvarið í fyrri partinum hlægilegt.
4. því það er frekar auðvelt að draga hluti eftir svelli, sérstaklega ef það eru léttir hlutir.
5. Harpa er frekar létt - en furðulegt að refurinn sé að þvælast með hljóðfæri á svellinu.
6. Reynt hefur verið að laga þetta eitthvað með því að gera ráð fyrir að "harpa" merkti þarna hörpuskel - en engin dæmi séu um það, hvorki fyrr né síðar að "harpa" sé í þeirri merkingu. Og ”af hverju er refurinn með hörpuskel? - er þetta þá við sjóinn? er ísinn hafís?”

Svo langt vitna ég til Aðalsteins. Tilgátan um að "harpa" merki í þessu sambandi hörpuskel er í forníslenskri orðabók Guðbrands Vigfússonar frá miðri 19. öld, sem jafnan er kennd við kostarann, breska auðmanninn Cleasby.
Rétt er að ýmis tilsvör Sveinka eru torskilin hvert um sig, en mér sýnist þó unnt að ná skilningi ef þau eru tekin í samhengi og litið á aðstæður hans, hann hefur mikið og traust fylgi í heimahéraði sínu, og er ú í Osló með 500 manna liði, en er aðþrengdur af sendimönnum konungs, þeir mæla fagurt, en hann má ætla að honum sé mikil hætta búin, sami konungur er nýbúinn að láta hengja tvo lenda menn fyrir uppreisn gegn sér. Reyndar minnir sendimaður konungs á það, svo vinsamlega sem hann annars talar. Svo Sveinki stendur á sínu, þrjóskufullur, en andmælir ekki berum orðum, er svolítið ráðgátulegur. Deilur og reiði magnast þó stig af stigi milli hans og Sigurðar talsmanns konungs.
Þegar orð þykir ankannalegt í samhengi, gefst oft vel sú tilraun að skipta um orð. Ef sett er karl eða kerling í stað refs hér að ofan, glatast nokkuð svipað og ef sett er hundur eða hestur. Hefðbundið er að refur vísi til slægðar, og má hún þykja einkenna sendimenn konungs hér eða hann sjálfan, alla vega þykjast þeir slægir að dómi Sveinka. En hversvegna dregur refurinn hörpu? Ef sett er t.d. gás í staðinn (refurinn þyrfti ekki að draga minni fugl, svo sem rjúpu eða lóu, hann bæri hann í kjaftinum), þá verður útkoman ómerkileg, sjálfsagður hlutur; auðvitað notar refur ekki hlunna til að draga fugl! Hér þarf því tilvísun til mannheima, eins og felst í orðinu refur. Í fornsögum (og kvæði Gríms Thomsen) segir frá Áslaugu, sem fólst í hörpu. Það hefur þá verið stór harpa lík því sem sést á sviði hljómsveita nú á dögum, nett telpa gæti hugsanlega dulist í hljómbotninum, þótt varla bætti það hljóminn. En það væri allt of mikið afrek refsins að draga slíka hörpu, hér á við að hugsa til írskrar hörpu, t.d., sem hljóðfæraleikarinn hélt í annarri hendi, en sló hinni.
En hví hörpu? Ef við nú setjum annað úr mannheimum, t.d. algengt verkfæri, í staðinn, reku eða heykvísl, þá verður þetta alþýðlegt, þar sem harpa vísar frekar til höfðingja, sendimanns Magnúss konungs, sem hér er kallaður refur.
Ragnar Önundarson tengdi (í tölvupósti til mín) hörpuna við fagurgala. Það á mætavel við. Þá er Sveinki að segja eitthvað á þá leið að undirförull (refslegur) sendimaður konungs fari með fagurgala, sem lýsir vel undanfarandi ræðu þessa manns, og að sá þykist fara létt með þetta, en hann, Sveinki, sjái í gegnum það. Enda segir hann næst: "Snælega snuggir sveinar, kváðu Finnar, áttu andra fala". Með orðalagi nútímans: "Það virðist ætla að fara að snjóa, sögðu Finnar, þeir höfðu skíði til sölu." Enn er hér viðvörun við fagurgala, auglýsingamennsku. Raunar virðist Sveinki vísa til sendimanna konungs með orðinu refar síðar í tölu sinni, þegar hann segir "Putt, putt, skömm hunda, skitu refar í brunn karls." Raunverulegum refum er ekki ætlandi slík fyrirtekt, svo hér mun Sveinki vera að eggja lið sitt, að láta ekki aðkomna varga vaða yfir sig eins og bæjarhundarnir gerðu. Enda sigar hann síðan mönnum sínum á sendimann Magnúsar konungs, sem komst undan með naumindum.
En af öllu þessu sést að þetta orðalag "Era hlunns vant kvað refur, dró hörpu á ísi" rís upp af þeim aðstæðum sem lýst er í Sveinkaþætti Morkinskinnu, svo önnur rit sem hafa þetta orðalag munu hafa þegið það frá Morkinskinnu, sem þá er eldri - hafi það ekki verið ljóst fyrir. Þetta er í Mágussögu jarls og þriðju málfræðiritgerðinni, svo sem Helle Degnbol benti mér á.
Þá á framangreint orðalag, gort um að þurfa ekki hlunna til að draga hörpu á ísi, við sem háð um þá sem láta mikinn, en af litlum burðum.

Um bloggið

Örn Ólafsson

Höfundur

Örn Ólafsson
Örn Ólafsson
Bókmenntafræðingur, búsettur í Kaupmannahöfn. Sjá ennfremur www.oernolafs.dk \%a http://oernolafs.blogspot.com \%a http://journals.aol.com/oernolafs/artikler
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Örn53
  • ...berlindemo

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband