Útför Þórbergs og fleira

Um útför Þórbergs og fleira

Nýlega las ég góða bók, Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson. Þar gefst vel að fjalla um tvo jafnaldra en ólíka rithöfunda, Þórberg og Gunnar Gunnarsson. Þeir varpa ljósi hvor á annan í samanburðinum, og ítarleg umfjöllun Halldórs veitir sannfærandi svör við gömlum, mikilvægum spurningum. Esperantó var svo miklu sigurstranglegra sem verðandi heimsmál á áratugunum milli stríða en nú er, að áköf ástundun Þórbergs við það mál má mjög líklega hafa verið lausn á vanda íslenskra rithöfunda, sem áttu um það að velja að skrifa fyrir mjög lítið samfélag, og reyna síðan að fá verk sín þýdd, eða þá að skrifa á máli stærri þjóðar, eins og Gunnar gerði. Kenning Halldórs er þá að Þórbergur hafi ætlað sér að gerast alþjóðlegur höfundur á esperantó. En sjást þess nokkur merki, að hann hafi sent frá sér meiri háttar rit sín á því máli? Einnig er hér sannfærandi svar við þeirri áleitnu ráðgátu, hversvegna svo afkastamikill rithöfundur sem Gunnar var, skyldi nokkurnveginn hætta skáldskap í seinni heimsstyrjöld, rétt rúmlega fimmtugur, þegar margir rithöfundar eru í fullu fjöri. Það var hann líka, en áfallið hefur verið óskaplegt, að frétta helstu samstarfsmenn sína um útbreiðslu bóka hans á mikilvægasta bókamarkaði hans, Þýskalandi, hengda fyrir glæpi gegn mannkyninu. Og þótt Gunnar væri fráleitt nasisti – til þess bendir ekkert -, hafði hann svo mikil og vinsamleg samskipti við Nasistaríkið, að hrun þess hefur verið honum áfall, eins og Halldór rekur, en áður rakti það vel Sveinn Skorri Höskuldsson með fleiri skýringum (í Tímariti Máls og menningar, 1988).
Enda þótt Þórbergur hafi mikið skrifað um eigin ævi, var full þörf á að fjalla um það efni úr gagnrýnni fjarlægð, fólki hefur hætt til að trúa honum um of bókstaflega, t.d. fáránlegu sjálfshóli, eins og þegar hann sagðist einn manna “kunna að lesa hús”, þ.e. að sjá hvernig þau voru hugsuð, eða hvernig lífsháttum þau einkenndust af. Hvernig hefði hann átt að geta vitað að enginn annar sæi það?
Vitað er að nú vinna höfundar að sérstökum bókum um hvorn þessara höfunda, og þær geta orðið þarfar og góðar, einkum ef meira er fjallað um listræn sérkenni verka þessara höfunda en hér er gert. Eðlilega voru því takmörk sett hér, enda bókin löng og um mikið efni.

Halldór fjallar m.a. ítarlega um dagbækur Þórbergs, án þess að nefna fyrri umfjöllun, en það er almenn vinnuregla fræðimanna að gera grein fyrir slíku, og hverju þeir séu þar sammála eða ósammála, og þá með hvaða rökum.
Reyndar hafði ég fjallað um þessar dagbækur áður, hér í Lesbók Mbl (þá grein má sjá á vefslóð minni: httm://oernolafs.blogspot.com). Þar hafði ég m.a. leitt rök að því að mikilvæg persóna í Íslenskum aðli, "Elskan hans Þórbergs" væri sköpuð úr dagbókarfærslum hans um tvær aðskildar persónur; í fyrsta lagi um Arndísi Jónsdóttur 1912, og ennfremur um Tryggva Jónsson, 1916. Þetta tekur Halldór upp, og hefur sömu dæmi og ég hafði tilfært um textalíkingar um Tryggva (lýsing fjalls sem rifjar upp samfundi). Ég held að Þórbergur hafi hlotið að vita hvað hann var að segja þegar hann játaði ást sína á öðrum karlmanni, og lét þá færslu standa, í margritskoðaðri dagbók sinni. Hann var rúmlega hálfþrítugur, og hafði átt vingott við konur, svo sem frægt er orðið í Ofvitanum. Á okkar víðsýnistímum finnst mér alveg ástæðulaust að reyna að draga fjöður yfir þetta í fari frægs rithöfundar.

Hitt hefur Halldór ekki vitað, að ég tók myndina af jarðarför Þórbergs, sem hann hefur á bls. 397. Tildrög þess voru, að ég var nýbúinn að eignast nokkuð vandaða myndavél, og var með áberandi ljósmyndadellu. Samkennari minn við Hamrahlíð, esperantistinn Árni Böðvarsson kom að máli við mig og sagði að jarðarför Þórbergs yrði næsta morgun í Fossvogi, og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af henni. Mig minnir að hann skilaði þessari bón frá Þorvaldi Þórarinssyni, lögfræðingi Þórbergs, sem vissulega kom í jarðarförina, drukkinn, og minnti á fyrirmæli Þórbergs um útför hans, í eftirmála Eddu hans:

“að hann verði ekki borinn í kirkju né neitt annað guðshús.
Að enginn prestur eða prestvígður maður verði látinn segja yfir honum eitt aukatekið orð, hvorki innií húsi né neinsstaðar utan gátta.
Hinsvegar lætur höfundur Eddu það alveg kúra milli hluta, hvort leikmenn tuldri eitthvað yfir moldum hans eða enginn mæli þar einu orði. Engar rellur geri hann sér heldur útaf því, hvort sungnir verði sálmar yfir skrokk hans dauðum eða kyrjaðar veraldlegar vísur eða hvort allir þegi þar þunnu hljóði. Mörgu öðru þægilegra myndi honum þó finnast, ef í eyra hans legði Internationalinn upp á pallskör astralplansins.”

Ekkjan Margrét fór ekki allskostar að þessu, heldur hafði þá málamiðlun að fá fornfélaga Þórbergs, séra Gunnar Benediktsson, sem þá var hættur prestskap fyrir hálfri öld, til að tala yfir líki Þórbergs inni í kapellunni, og voru þar að auki aðeins systir hennar og Matthías Johannessen, minnir mig. Gunnar var síðan spurður hvað hann hefði sagt yfir Þórbergi, og svaraði að það gæti hann ekki munað, því hann hefði allan tímann verið að hugsa: "Ekki nefna guð, ekki nefna Jesú".
Nema hvað, þegar kistan var borin út úr kapellunni, beið þar einvalalið Fylkingarinnar undir rauðum fánum og háðsglotti Þorvalds lögmanns. Síðan var arkað moldartroðninga, illfæru og krókaleið, að tekinni gröf, og kistunni sökkt í hana, meðan sunginn var Internationalinn, að fyrrgreindum fyrirmælum Þórbergs, undir forsöng Birnu Þórðardóttur. Þá hélt mágkona Þórbergs fyrir eyrun, svo sem sést á myndinni, en Matthías horfir þungbúinn til himins. 
Tveimur vikum síðar nefndi Árni við mig, að Margrét vildi gjarnan fá þessar myndir mínar. Svo ég fór til hennar að kvöldi í íbúðina að Hringbraut, og tók hún þakksamlega við, en klökknaði hvert sinn sem hún nefndi Þórberg.
Þetta var spaugilegasta útför sem ég hefi verið við, og kemst aðeins útför Sverris Kristjánssonar sagnfræðings í námunda við hana. En þar greip drukkinn kirkjugestur hvað eftir annað hástöfum fram í fyrir presti, og sagði hann fara með “helvítis kjaftæði”. Hannibal Valdimarsson sat við hlið hans og sagði honum hastarlega að þegja, en hinn sagðist hafa lofað vini sínum Sverri að skandalísera við jarðarför hans, “og ég stend sko við mín loforð”.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Saluton Örn.

Þakka þér fyrir frásögn þína á jarðarför Þórbergs þótt ég hefði gjarnan viljað sjá hana ýtarlegri í anda meistarans. Þú gerir athugasemd við þá kennignu Halldórs að Þórbergur hefði ætlað sér „að gerast alþjóðlegur höfundur á esperanto“ og spyrð hvort þess sjáist nokkur merki „að hann hafi sent frá sér meiriháttar rit sín á því máli“. Því er til að svara að í fyrsta bréfi Þórbergs sem varðveitt er á esperanto segir hann berum orðum að hann ætli að gerast rithöfundur á esperanto og til þessa bréf vitnar Halldór. Þá helgaði hann sig esperanto nær eingöngu í rúman áratug og fékkst þá fyrst og fremst við samningu kennslubóka og orðabókarsmíð og hygg ég að sumum heðði reynst það ærið ævistarf. Þar fyrir utan þýddi hann nokkuð á esperanto og skrifaði nokkur merkileg bréf.

Það þarf sem sé ekki að vera með neinar tilgátur um esperantostarf Þórbergs. Um það eru nógar heimildir og skal ég að lokum benda á að við esperantistar höfum gefið út tímarit, La Tradukisto, helgað Þórbergi og eru í því ýmis verk Þórbergs á esperanto og einnig þýðingar á esperantoskrifum hans.

Af ritinu eru nú komin út 54 tölublöð og ættu þeir sem áhuga hafa á að vitna í skrif fyrri manna um esperantoskrif Þórbergs að kynna sér ritið.

Sincere,

Kristján Eiríksson

Kristján Eiríksson (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Örn Ólafsson

Höfundur

Örn Ólafsson
Örn Ólafsson
Bókmenntafræðingur, búsettur í Kaupmannahöfn. Sjá ennfremur www.oernolafs.dk \%a http://oernolafs.blogspot.com \%a http://journals.aol.com/oernolafs/artikler
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Örn53
  • ...berlindemo

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 4724

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband