Hrunið


Það er ekkert nýtt að kreppa verði í því efnahagskerfi sem ríkt hefur um veröld víða undanfarnar aldir, og kennt er við auðvald. Frjálsri (raunar misfrjálsri!) samkeppni fylgir offramleiðsla á vörum sem þóttu söluvænlegar, síðan kemur sölutregða, gjaldþrot o.s.frv., svo aðeins eitt sé talið. Slíkar kreppur hafa riðið yfir heiminn hvað eftir annað í meira en öld. En sjaldan hafa þær orðið eins svakalegar og nú, einkum hefur Ísland aldrei orðið fyrir öðru eins. Skýringin virðist mér liggja í augum uppi. Um langt skeið hafa svokallaðir nýfrjálshyggjumenn prédikað að best sé að láta öfl markaðsins einráð, öll ríkisafskipti séu til ills eins. Nei, það hefur nú sýnt sig að auðvitað verða sumir stjórnlausir í græðgi og því þarf opinbert eftirlit og aðhald ríkisins. Enda eru til sérstakar stofnanir sem eiga að annast það, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki. Þær brugðust bara hlutverki sínu, og virðist nærtækt að kenna um fyrrgreindum áróðri nýfrjálshyggjumanna gegn ríkisafskiptum, hann hefur lengi drottnað í íslenskum fjölmiðlum.
Bankarnir höfðu áður tiltekna bindiskyldu, leggja skyldu þeir fé til hliðar í hlutfalli við lánveitingar. Þessi bindiskylda bankanna var skert. Hefðu þeir farið á hausinn ella? Hér kemur til ábyrgð Seðlabankans og auðvitað yfirboðara hans í ríkisstjórn. Þetta fólk á að víkja úr þeim stöðum sem það svo augljóslega ekki gat valdið. Það er haft eftir Davíð Oddssyni að á fundum Seðlabankastjórnar hafi honum hundleiðst þetta hagfræðikjaftæði, sem hann botnaði ekkert í. Er þá ekki löngu tímabært að maðurinn víki? Ekki þarf að óttast um afkomu hans, ólíkt margra annarra Íslendinga. Það hefur sýnt sig að þessa bindiskyldu bankanna þarf.
Nú boða sumir þjóðarsátt og allsherjarfyrirgefningu afglapa í efnahagslífinu. En þetta fyrirgefningarkjaftæði undir fyrirsögninni "Allar erum við syndugar systur" er bara til að drepa öllu á dreif, og reyna ekki einu sinni að skilja hvað fór úrskeiðis. Jafnvel sannkristið fólk boðar þó einungis fyrirgefningu þeim sem iðrast gerða sinna, uppgjör þarf. Enda væri hlægilegur dónaskapur að segjast fyrirgefa fólki eitthvað sem það þykist hafa gert rétt. Það á t.d. við um forstöðumann "Fjármálaeftirlitsins" svokallaða, sem sagði að það hefði fylgst með að "ekkert ólöglegt" hefði verið gert í útrásinni. Var það nóg? Ætti ekki eftirlitið að fylgjast með því líka hvort eitthvað væri óráðlegt, hættulegt?
Sagt hefur verið að meðal mótmælenda séu sundurleitir hópar, einnig vonsviknir verðbréfabraskarar. En hvaða máli skipta þeir? Er ekki aðalvandamálið afkoma íslensks alþýðufólks? Mér sýnist full ástæða til að hafa áhyggjur af henni, með fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í stórum stíl og gengistryggð húsnæðislán. Ennfremur er núna óhugsandi fyrir unga Íslendinga að stunda framhaldsnám erlendis, og ríður þó á miklu að auka menntun landsmanna til að skapa ný atvinnutækifæri.
Mestu skiptir að til að forðast svipaðar hrakfarir síðar verður að upplýsa ferlið, hversvegna hrunið varð.
Auðvaldinu fylgja óhjákvæmilega kreppur hvað eftir annað, það hefur sagan sýnt. En því miður virðist ekki vera nein grundvallarandstaða gegn auðvaldi á Íslandi. Ekki einu sinni Vinstrigrænir hafa sósíalisma á stefnuskrá sinni mér vitanlega. Og í því tómarúmi er hætta á að upp komi fasísk hreyfing, krafa um gjörræði, andúð á útlendingum og fleira af því tagi, sem mestu böli olli á síðustu öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Örn Ólafsson

Höfundur

Örn Ólafsson
Örn Ólafsson
Bókmenntafræðingur, búsettur í Kaupmannahöfn. Sjá ennfremur www.oernolafs.dk \%a http://oernolafs.blogspot.com \%a http://journals.aol.com/oernolafs/artikler
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Örn53
  • ...berlindemo

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband