Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.5.2012 | 11:32
Lifandi fyrirmyndir skáldsagnapersóna
30.10.2010 | 17:20
ESB aðild Íslands
Stuðningsmenn ESB-aðildar Íslands finnst mér þurfa að útskýra þetta:
1. Hvernig hefði farið fyrir Grikkjum - og Írum - í kreppu þeirra nú, hefðu þeir ekki verið bundnir af evrum?
2. Hvernig hefði kreppan farið með Íslendinga, hefðu þeir haft evrur í stað króna, þegar hrunið varð?
Rökstutt hefur verið að hrunið hefði orðið margfalt verra, því Seðlabanki Evrópusambandsins hefði teygt á yfirdráttarvitleysunni.
Ennfremur hefur verið rökstutt að til þess að eitthvert landsvæði geti haft sameiginlega mynt, þurfi það að hafa sameiginlega fjármálastjórn. En því fer auðvitað víðsfjarri í sundurleitum hagkerfum Evrópuríkja.
Svar óskast!
12.5.2009 | 10:00
Borgarahreyfingin og stjórnlagaþing
Ég sat kosningafund í Jónshúsi í Kaupmannahöfn kvöldið 16. apríl. Þar var margt fróðlegt að heyra og mæltist fulltrúum frambjóðenda vel. Eitt vakti þó sérstaka athygli mína. Fulltrúi Borgarahreyfingarinnar sagði eitthvað á þá leið, að brýnt væri að halda stjórnlagaþing til að endurskoða íslensku stjórnarskrána, þótt því hefði nú verið frestað. En hreyfing hans vildi ekki láta kjósa til þessa stjórnlagaþings, heldur ætti að velja AF HANDAHÓFI úrtak úr þjóðskránni til að sitja það. Síðan mættu þeir fulltrúar kveðja sérfræðinga sér til ráðgjafar, og einhverjar fleiri krúsidúllur komu til, sem ég nam ekki á fluginu.
Þetta er að snúa hlutunum á hvolf. Til að semja stjórnarskrárbreytingar á ekki að kveðja til Gunnu á Bakka, Jón Jónsson og fólk eins og mig, sem aldrei höfum fengist við slík málefni og þekkjum ekki til þeirra. Auðvitað á að kveðja til þess fólk sem hefur sett sig inn í málin. Sérmenntaða lögfræðinga, framáfólk úr stjórnmálaflokkum og stjórnsýslu, og gjarnan sérfræðinga eins og Björn Stefánsson í Reykjavíkurakademíu sem árum saman hefur rannsakað ýmis form lýðræðis. Hvernig á að velja þetta fólk? Besta aðferðin er væntanlega að óska eftir framboðum og kjósa úr þeim. Svo þegar stjórnlagaþing hefur gert sínar tillögur gjarna með mismunandi valkostum sem velja á úr ÞÁ á að leggja tillögurnar fyrir almenning í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ýmislegt má finna að atvinnustjórnmálamönnum sumum hverjum. En þessi fáránlega tillaga Borgarahreyfingarinna sýnir þó að atvinnustjórnmálamenn eru miklu fremri stjórnmálafúskurum og lýðskrumurum.
12.11.2008 | 15:39
Hrunið
Það er ekkert nýtt að kreppa verði í því efnahagskerfi sem ríkt hefur um veröld víða undanfarnar aldir, og kennt er við auðvald. Frjálsri (raunar misfrjálsri!) samkeppni fylgir offramleiðsla á vörum sem þóttu söluvænlegar, síðan kemur sölutregða, gjaldþrot o.s.frv., svo aðeins eitt sé talið. Slíkar kreppur hafa riðið yfir heiminn hvað eftir annað í meira en öld. En sjaldan hafa þær orðið eins svakalegar og nú, einkum hefur Ísland aldrei orðið fyrir öðru eins. Skýringin virðist mér liggja í augum uppi. Um langt skeið hafa svokallaðir nýfrjálshyggjumenn prédikað að best sé að láta öfl markaðsins einráð, öll ríkisafskipti séu til ills eins. Nei, það hefur nú sýnt sig að auðvitað verða sumir stjórnlausir í græðgi og því þarf opinbert eftirlit og aðhald ríkisins. Enda eru til sérstakar stofnanir sem eiga að annast það, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki. Þær brugðust bara hlutverki sínu, og virðist nærtækt að kenna um fyrrgreindum áróðri nýfrjálshyggjumanna gegn ríkisafskiptum, hann hefur lengi drottnað í íslenskum fjölmiðlum.
Bankarnir höfðu áður tiltekna bindiskyldu, leggja skyldu þeir fé til hliðar í hlutfalli við lánveitingar. Þessi bindiskylda bankanna var skert. Hefðu þeir farið á hausinn ella? Hér kemur til ábyrgð Seðlabankans og auðvitað yfirboðara hans í ríkisstjórn. Þetta fólk á að víkja úr þeim stöðum sem það svo augljóslega ekki gat valdið. Það er haft eftir Davíð Oddssyni að á fundum Seðlabankastjórnar hafi honum hundleiðst þetta hagfræðikjaftæði, sem hann botnaði ekkert í. Er þá ekki löngu tímabært að maðurinn víki? Ekki þarf að óttast um afkomu hans, ólíkt margra annarra Íslendinga. Það hefur sýnt sig að þessa bindiskyldu bankanna þarf.
Nú boða sumir þjóðarsátt og allsherjarfyrirgefningu afglapa í efnahagslífinu. En þetta fyrirgefningarkjaftæði undir fyrirsögninni "Allar erum við syndugar systur" er bara til að drepa öllu á dreif, og reyna ekki einu sinni að skilja hvað fór úrskeiðis. Jafnvel sannkristið fólk boðar þó einungis fyrirgefningu þeim sem iðrast gerða sinna, uppgjör þarf. Enda væri hlægilegur dónaskapur að segjast fyrirgefa fólki eitthvað sem það þykist hafa gert rétt. Það á t.d. við um forstöðumann "Fjármálaeftirlitsins" svokallaða, sem sagði að það hefði fylgst með að "ekkert ólöglegt" hefði verið gert í útrásinni. Var það nóg? Ætti ekki eftirlitið að fylgjast með því líka hvort eitthvað væri óráðlegt, hættulegt?
Sagt hefur verið að meðal mótmælenda séu sundurleitir hópar, einnig vonsviknir verðbréfabraskarar. En hvaða máli skipta þeir? Er ekki aðalvandamálið afkoma íslensks alþýðufólks? Mér sýnist full ástæða til að hafa áhyggjur af henni, með fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í stórum stíl og gengistryggð húsnæðislán. Ennfremur er núna óhugsandi fyrir unga Íslendinga að stunda framhaldsnám erlendis, og ríður þó á miklu að auka menntun landsmanna til að skapa ný atvinnutækifæri.
Mestu skiptir að til að forðast svipaðar hrakfarir síðar verður að upplýsa ferlið, hversvegna hrunið varð.
Auðvaldinu fylgja óhjákvæmilega kreppur hvað eftir annað, það hefur sagan sýnt. En því miður virðist ekki vera nein grundvallarandstaða gegn auðvaldi á Íslandi. Ekki einu sinni Vinstrigrænir hafa sósíalisma á stefnuskrá sinni mér vitanlega. Og í því tómarúmi er hætta á að upp komi fasísk hreyfing, krafa um gjörræði, andúð á útlendingum og fleira af því tagi, sem mestu böli olli á síðustu öld.
9.10.2007 | 12:27
Rósa Lúxembúrg
Fyrir áratugum valdi ég og þýddi nokkur úrvalsrit
Rósu Lúxembúrg. Þetta átti að verða kilja hjá Máli og menningu, í
bókaflokki þess um marxisma. En bæði var að bækurnar höfð lítt selst,
og svo fór mér eins og lúterstrúarmönnum um miðja 16. öld, sem
óttuðust að víkja út af réttlínu ef ekki væri haldið orðalagi
frumtexta, svo þýðing mín varð heldur óbjörguleg. Ég hefi nú grafið
hana fram og bætt eftir föngum, og lagt út á netið, á þessa vefslóð:
http://rosaluxemburgislensku.blogspot.com
Vona ég að þið hafið ánægju af, og látið berast. Neðst í undirskrift
minni eru greinasöfn mín, einnig á vefslóðum. Sú íslenska fjallar mest
um bókmenntir, en sú danska er árásir á nánustu vini og félaga. Vel
gagnist!
20.6.2007 | 08:34
Stjórnarþáttaka VG?
Furðulegt var að lesa leiðara Mbl. þar sem forysta VG var átalin fyrir "að klúðra möguleikum á stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn"! Það vantaði bara upplýsingar um hvað í ósköpunum slík ríkisstjórn ætti að hafa að málefnagrundvelli, hvað gæti hún gert, sem aðrir flokkar vildu ekki? Auðvitað hefði það verið pólitískt sjálfsmorð fyrir VG að gera einhverja samninga við íhaldið. Meira klúðrið að þau skyldu ekki kála sér! Sósíalískur flokkur, sem segist vilja afnema auðvaldskerfið, getur ekki átt hlut að stjórn þess. Hann hefur langmest áhrif í stjórnarandstöðu, að leiða baráttu alþýðufólks fyrir réttindum þess og hagsbótum, gegn stjórnvöldum. Nýlegt dæmi frá Noregi er umhugsunarvert. Fyrst stjórnuðu kratar að hætti Tony Blair og co, og töpuðu gífurlegu fylgi - og völdum - á þeirri nýfrjálshyggju, eðlilega tók svo við hægristjórn með samskonar stefnu. Þá söðluðu kratar um og ráku vinstri stjórnarandstöðu ásamt SV (Socialistisk venstreparti). Þeir komust svo aftur til valda, og nú var SV með. Afleiðingin varð sú, að það var engin vinstriandstaða á þingi, og nú sígur stjórnin æ meira til hægri.
Vegna áratuga búsetu erlendis þekki ég ekki flokkinn Vinstrigræna, veit ekki hvort hann er byltingarflokkur. En um byltingarflokka gilda eftirfarandi glefsur úr riti Rósu Lúxembúrg frá 1900-1901 (Die sozialistische Krise in Frankreich):
Munurinn á sósíalískri stefnu og borgaralegri er sá, að þar sem sósíalistar eru andstæðingar alls hins ríkjandi kerfis, þá eru þeir í grundvallaratriðum bundnir við stjórnarandstöðu á borgaralegu þingi. Mikilvægasta verkefni sósíalista á þingi er að upplýsa verkalýðsstéttina. Og það leysa þeir fyrst og fremst af hendi með kerfisbundinni gagnrýni á ríkjandi stefnu. En það er svo langt í frá að stjórnarandstaða í grundvallaratriðum útiloki hagnýta, áþreifanlega ávinninga, beinar umbætur, framfarasókn, að hún er einmitt eina virka leiðin til að ná slíkum hagnýtum ávinningum, almennt talað fyrir sérhvern minnihlutaflokk, og þó gildir þetta alveg sérstaklega fyrir sósíalista.Sósíalistar eiga ekki möguleika á að láta samþykkja stefnu sína sósíalíska byltingu - af borgaralegum þingmeirihluta.- (Borgaralegur kallast sá sem miðar stjórnmálastarf sitt við að auðvaldskerfið standi áfram). Því eiga þeir ekki um annað að velja en að neyða hinn borgaralega meirihluta til tilslakana í stöðugri baráttu. Með gagnrýni stjórnarandstöðu ná þeir þessu fram á þrjá vegu: Þeir veita borgaralegum flokkum hættulega samkeppni með því að ganga lengst allra í kröfugerð, og ýta þeim þannig áfram með þrýstingi kjósendafjöldans, einnig með því að afhjúpa ríkisstjórnina fyrir þjóðinni og orka þannig á stjórnina með almenningsálitinu, loks dregur gagnrýni þeirra, innan þings og utan, stöðugt meiri alþýðufjölda að þeim, þannig verða þeir að afli, sem ríkisstjórn og borgarastétt verða að taka tillit til.
Vissulega geta sósíalistar varið borgaralega ríkisstjórn falli, sem illskárri kost, svo lengi sem þeir geta knúið hana til umbóta. En gangi þeir í slíka ríkisstjórn snýst taflið við, þá geta borgaralegir samstarfsaðiljar þeirra hótað stjórnarslitum, sætti sósíalistar sig ekki við einar aðgerðir eftir aðrar.
Og sósíalistar fara að réttlæta borgaralega stefnu ríkisstjórnarinnar, því ella mætti spyrja hvað þeir gerðu í slíkri stjórn.
Allt annað mál er þátttaka í bæjarstjórnum. Satt er það að bæjarstjórnir og borgarstjórar hafa meðal annars það hlutverk að stjórna og að sjá um framkvæmd borgaralegra laga. En sögulega séð eru bæjarstjórnir og ríkisstjórn algerlega andstæð fyrirbæri. Ríkisstjórnin er líkamningur miðstýrðs ríkisvalds, en bæjarstjórn vex upp úr sjálfsstjórn á staðnum á kostnað miðstýringarinnar, sem frelsun undan miðstýringunni. Eiginlegt eðli ríkisstjórnarinnar eru sérstök tæki drottnunar borgarastéttarinnar: málefni hers, kirkju, viðskiptamál, utanríkismál. En bæjarstjórn er sérstaklega tilkvödd að fást við menningar- og efnahagsmál, þ.e. þau málefni sem verða viðfangsefni sósíalísks samfélags, eftir að stéttaskipting hverfur. Sögulega séð eru því ríkisstjórn og bæjarfélag andstæðir pólar í nútímasamfélagi. . Baráttuaðferðir sósíalista gagnvart þessu tvennu verða því gerólíkar: Ríkisstjórn nútímaríkis er líkamningur drottnunar borgarastéttarinnar, og það er óhjákvæmileg forsenda sigurs sósíalista að ryðja henni úr vegi. Sjálfstjórnin er framtíðarafl, sem sósíalísk bylting kemur til með að tengjast á jákvæðan hátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.7.2007 kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2007 | 14:01
Útför Þórbergs og fleira
Um útför Þórbergs og fleira
Nýlega las ég góða bók, Skáldalíf eftir Halldór Guðmundsson. Þar gefst vel að fjalla um tvo jafnaldra en ólíka rithöfunda, Þórberg og Gunnar Gunnarsson. Þeir varpa ljósi hvor á annan í samanburðinum, og ítarleg umfjöllun Halldórs veitir sannfærandi svör við gömlum, mikilvægum spurningum. Esperantó var svo miklu sigurstranglegra sem verðandi heimsmál á áratugunum milli stríða en nú er, að áköf ástundun Þórbergs við það mál má mjög líklega hafa verið lausn á vanda íslenskra rithöfunda, sem áttu um það að velja að skrifa fyrir mjög lítið samfélag, og reyna síðan að fá verk sín þýdd, eða þá að skrifa á máli stærri þjóðar, eins og Gunnar gerði. Kenning Halldórs er þá að Þórbergur hafi ætlað sér að gerast alþjóðlegur höfundur á esperantó. En sjást þess nokkur merki, að hann hafi sent frá sér meiri háttar rit sín á því máli? Einnig er hér sannfærandi svar við þeirri áleitnu ráðgátu, hversvegna svo afkastamikill rithöfundur sem Gunnar var, skyldi nokkurnveginn hætta skáldskap í seinni heimsstyrjöld, rétt rúmlega fimmtugur, þegar margir rithöfundar eru í fullu fjöri. Það var hann líka, en áfallið hefur verið óskaplegt, að frétta helstu samstarfsmenn sína um útbreiðslu bóka hans á mikilvægasta bókamarkaði hans, Þýskalandi, hengda fyrir glæpi gegn mannkyninu. Og þótt Gunnar væri fráleitt nasisti til þess bendir ekkert -, hafði hann svo mikil og vinsamleg samskipti við Nasistaríkið, að hrun þess hefur verið honum áfall, eins og Halldór rekur, en áður rakti það vel Sveinn Skorri Höskuldsson með fleiri skýringum (í Tímariti Máls og menningar, 1988).
Enda þótt Þórbergur hafi mikið skrifað um eigin ævi, var full þörf á að fjalla um það efni úr gagnrýnni fjarlægð, fólki hefur hætt til að trúa honum um of bókstaflega, t.d. fáránlegu sjálfshóli, eins og þegar hann sagðist einn manna kunna að lesa hús, þ.e. að sjá hvernig þau voru hugsuð, eða hvernig lífsháttum þau einkenndust af. Hvernig hefði hann átt að geta vitað að enginn annar sæi það?
Vitað er að nú vinna höfundar að sérstökum bókum um hvorn þessara höfunda, og þær geta orðið þarfar og góðar, einkum ef meira er fjallað um listræn sérkenni verka þessara höfunda en hér er gert. Eðlilega voru því takmörk sett hér, enda bókin löng og um mikið efni.
Halldór fjallar m.a. ítarlega um dagbækur Þórbergs, án þess að nefna fyrri umfjöllun, en það er almenn vinnuregla fræðimanna að gera grein fyrir slíku, og hverju þeir séu þar sammála eða ósammála, og þá með hvaða rökum.
Reyndar hafði ég fjallað um þessar dagbækur áður, hér í Lesbók Mbl (þá grein má sjá á vefslóð minni: httm://oernolafs.blogspot.com). Þar hafði ég m.a. leitt rök að því að mikilvæg persóna í Íslenskum aðli, "Elskan hans Þórbergs" væri sköpuð úr dagbókarfærslum hans um tvær aðskildar persónur; í fyrsta lagi um Arndísi Jónsdóttur 1912, og ennfremur um Tryggva Jónsson, 1916. Þetta tekur Halldór upp, og hefur sömu dæmi og ég hafði tilfært um textalíkingar um Tryggva (lýsing fjalls sem rifjar upp samfundi). Ég held að Þórbergur hafi hlotið að vita hvað hann var að segja þegar hann játaði ást sína á öðrum karlmanni, og lét þá færslu standa, í margritskoðaðri dagbók sinni. Hann var rúmlega hálfþrítugur, og hafði átt vingott við konur, svo sem frægt er orðið í Ofvitanum. Á okkar víðsýnistímum finnst mér alveg ástæðulaust að reyna að draga fjöður yfir þetta í fari frægs rithöfundar.
Hitt hefur Halldór ekki vitað, að ég tók myndina af jarðarför Þórbergs, sem hann hefur á bls. 397. Tildrög þess voru, að ég var nýbúinn að eignast nokkuð vandaða myndavél, og var með áberandi ljósmyndadellu. Samkennari minn við Hamrahlíð, esperantistinn Árni Böðvarsson kom að máli við mig og sagði að jarðarför Þórbergs yrði næsta morgun í Fossvogi, og spurði hvort ég vildi ekki taka myndir af henni. Mig minnir að hann skilaði þessari bón frá Þorvaldi Þórarinssyni, lögfræðingi Þórbergs, sem vissulega kom í jarðarförina, drukkinn, og minnti á fyrirmæli Þórbergs um útför hans, í eftirmála Eddu hans:
að hann verði ekki borinn í kirkju né neitt annað guðshús.
Að enginn prestur eða prestvígður maður verði látinn segja yfir honum eitt aukatekið orð, hvorki innií húsi né neinsstaðar utan gátta.
Hinsvegar lætur höfundur Eddu það alveg kúra milli hluta, hvort leikmenn tuldri eitthvað yfir moldum hans eða enginn mæli þar einu orði. Engar rellur geri hann sér heldur útaf því, hvort sungnir verði sálmar yfir skrokk hans dauðum eða kyrjaðar veraldlegar vísur eða hvort allir þegi þar þunnu hljóði. Mörgu öðru þægilegra myndi honum þó finnast, ef í eyra hans legði Internationalinn upp á pallskör astralplansins.
Ekkjan Margrét fór ekki allskostar að þessu, heldur hafði þá málamiðlun að fá fornfélaga Þórbergs, séra Gunnar Benediktsson, sem þá var hættur prestskap fyrir hálfri öld, til að tala yfir líki Þórbergs inni í kapellunni, og voru þar að auki aðeins systir hennar og Matthías Johannessen, minnir mig. Gunnar var síðan spurður hvað hann hefði sagt yfir Þórbergi, og svaraði að það gæti hann ekki munað, því hann hefði allan tímann verið að hugsa: "Ekki nefna guð, ekki nefna Jesú".
Nema hvað, þegar kistan var borin út úr kapellunni, beið þar einvalalið Fylkingarinnar undir rauðum fánum og háðsglotti Þorvalds lögmanns. Síðan var arkað moldartroðninga, illfæru og krókaleið, að tekinni gröf, og kistunni sökkt í hana, meðan sunginn var Internationalinn, að fyrrgreindum fyrirmælum Þórbergs, undir forsöng Birnu Þórðardóttur. Þá hélt mágkona Þórbergs fyrir eyrun, svo sem sést á myndinni, en Matthías horfir þungbúinn til himins. 
Tveimur vikum síðar nefndi Árni við mig, að Margrét vildi gjarnan fá þessar myndir mínar. Svo ég fór til hennar að kvöldi í íbúðina að Hringbraut, og tók hún þakksamlega við, en klökknaði hvert sinn sem hún nefndi Þórberg.
Þetta var spaugilegasta útför sem ég hefi verið við, og kemst aðeins útför Sverris Kristjánssonar sagnfræðings í námunda við hana. En þar greip drukkinn kirkjugestur hvað eftir annað hástöfum fram í fyrir presti, og sagði hann fara með helvítis kjaftæði. Hannibal Valdimarsson sat við hlið hans og sagði honum hastarlega að þegja, en hinn sagðist hafa lofað vini sínum Sverri að skandalísera við jarðarför hans, og ég stend sko við mín loforð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2007 kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Örn Ólafsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar