Stjórnarþáttaka VG?

Furðulegt var að lesa leiðara Mbl. þar sem forysta VG var átalin fyrir "að klúðra möguleikum á stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn"! Það vantaði bara upplýsingar um hvað í ósköpunum slík ríkisstjórn ætti að hafa að málefnagrundvelli, hvað gæti hún gert, sem aðrir flokkar vildu ekki? Auðvitað hefði það verið pólitískt sjálfsmorð fyrir VG að gera einhverja samninga við íhaldið. Meira klúðrið að þau skyldu ekki kála sér! Sósíalískur flokkur, sem segist vilja afnema auðvaldskerfið, getur ekki átt hlut að stjórn þess. Hann hefur langmest áhrif í stjórnarandstöðu, að leiða baráttu alþýðufólks fyrir réttindum þess og hagsbótum, gegn stjórnvöldum. Nýlegt dæmi frá Noregi er umhugsunarvert. Fyrst stjórnuðu kratar að hætti Tony Blair og co, og töpuðu gífurlegu fylgi - og völdum - á þeirri nýfrjálshyggju, eðlilega tók svo við hægristjórn með samskonar stefnu. Þá söðluðu kratar um og ráku vinstri stjórnarandstöðu ásamt SV (Socialistisk venstreparti). Þeir komust svo aftur til valda, og nú var SV með. Afleiðingin varð sú, að það var engin vinstriandstaða á þingi, og nú sígur stjórnin æ meira til hægri.

Vegna áratuga búsetu erlendis þekki ég ekki flokkinn Vinstrigræna, veit ekki hvort hann er byltingarflokkur. En um byltingarflokka gilda eftirfarandi glefsur úr riti Rósu Lúxembúrg frá 1900-1901 (Die sozialistische Krise in Frankreich):

Munurinn á sósíalískri stefnu og borgaralegri er sá, að þar sem sósíalistar eru andstæðingar alls hins ríkjandi kerfis, þá eru þeir í grundvallaratriðum bundnir við stjórnarandstöðu á borgaralegu þingi. Mikilvægasta verkefni sósíalista á þingi er að upplýsa verkalýðsstéttina. Og það leysa þeir fyrst og fremst af hendi með kerfisbundinni gagnrýni á ríkjandi stefnu. En það er svo langt í frá að stjórnarandstaða í grundvallaratriðum útiloki hagnýta, áþreifanlega ávinninga, beinar umbætur, framfarasókn, að hún er einmitt eina virka leiðin til að ná slíkum hagnýtum ávinningum, almennt talað fyrir sérhvern minnihlutaflokk, og þó gildir þetta alveg sérstaklega fyrir sósíalista.          

Sósíalistar eiga ekki möguleika á að láta samþykkja stefnu sína –sósíalíska byltingu - af borgaralegum þingmeirihluta.- (Borgaralegur kallast sá sem miðar stjórnmálastarf sitt við að auðvaldskerfið standi áfram). Því eiga þeir ekki um annað að velja en að neyða hinn borgaralega meirihluta til tilslakana í stöðugri baráttu. Með gagnrýni stjórnarandstöðu ná þeir þessu fram á þrjá vegu: Þeir veita borgaralegum flokkum hættulega samkeppni með því að ganga lengst allra í kröfugerð, og ýta þeim þannig áfram með þrýstingi kjósendafjöldans, einnig með því að afhjúpa ríkisstjórnina fyrir þjóðinni og orka þannig á stjórnina með almenningsálitinu, loks dregur gagnrýni þeirra, innan þings og utan, stöðugt meiri alþýðufjölda að þeim, þannig verða þeir að afli, sem ríkisstjórn og borgarastétt verða að taka tillit til.   

Vissulega geta sósíalistar varið borgaralega ríkisstjórn falli, sem illskárri kost, svo lengi sem þeir geta knúið hana til umbóta. En gangi þeir í slíka ríkisstjórn snýst taflið við, þá geta borgaralegir samstarfsaðiljar þeirra hótað stjórnarslitum, sætti sósíalistar sig ekki við einar ”aðgerðir” eftir aðrar.

Og sósíalistar fara að réttlæta borgaralega stefnu ríkisstjórnarinnar, því ella mætti spyrja hvað þeir gerðu í slíkri stjórn.

Allt annað mál er þátttaka í bæjarstjórnum. Satt er það að bæjarstjórnir og borgarstjórar hafa meðal annars það hlutverk að stjórna og að sjá um framkvæmd borgaralegra laga. En sögulega séð eru bæjarstjórnir og ríkisstjórn algerlega andstæð fyrirbæri.  Ríkisstjórnin er líkamningur miðstýrðs ríkisvalds, en bæjarstjórn vex upp úr sjálfsstjórn á staðnum á kostnað miðstýringarinnar, sem frelsun undan miðstýringunni. Eiginlegt eðli ríkisstjórnarinnar eru sérstök tæki drottnunar borgarastéttarinnar: málefni hers, kirkju, viðskiptamál, utanríkismál. En bæjarstjórn er sérstaklega tilkvödd að fást við menningar- og efnahagsmál, þ.e. þau málefni sem verða viðfangsefni sósíalísks samfélags, eftir að stéttaskipting hverfur. Sögulega séð eru því ríkisstjórn og bæjarfélag andstæðir pólar í nútímasamfélagi. .  Baráttuaðferðir sósíalista gagnvart þessu tvennu verða því gerólíkar: Ríkisstjórn nútímaríkis er líkamningur drottnunar borgarastéttarinnar, og það er óhjákvæmileg forsenda sigurs sósíalista að ryðja henni úr vegi. Sjálfstjórnin er framtíðarafl, sem sósíalísk bylting kemur til með að tengjast á jákvæðan hátt.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Ólafsson

Ég tek undir með þér Örn, það er undarlegt þetta tal um hugsanlegt stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins. Ég hef verið virkur í VG frá upphafi, hef engar grillur um flokkinn sem byltingarsinnaðan, lít á hann sem róttækan umbótaflokk (efast reyndar um að það sé nein skýr lína milli umbótastefnu og byltingarstefnu), en tel mikilvægt að hann haldi róttækni sinni og staðfestu. Margir halda að það sé nauðsynlegt að vera í stjórn til að hafa áhrif, en ég held að VG hafi í raun haft talsverð áhrif með staðfastri stjórnarandstöðu og geti haldið þeim áhrifum ef hann lyppast ekki niður í einhverja vanmetakennd.

Einar Ólafsson, 20.6.2007 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Örn Ólafsson

Höfundur

Örn Ólafsson
Örn Ólafsson
Bókmenntafræðingur, búsettur í Kaupmannahöfn. Sjá ennfremur www.oernolafs.dk \%a http://oernolafs.blogspot.com \%a http://journals.aol.com/oernolafs/artikler
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Örn53
  • ...berlindemo

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband